Næring og hollar matarvenjur er eitthvað sem allir vilja tileinka sér.
Það eru ekki allir sem ná tökum á því en forráðamenn CrossFit Ægir á Akranesi ætla að beina Skagamönnum í rétta átt með áhugaverðum fyrirlestri sem fram fer í kvöld, fimmtudaginn 10. okt.
María Rún Þorsteinsdóttir, eigandi og þjálfari CrossFit Hengils, mætir á Akranes þar sem hún verður með fróðlegt erindi um næringu og hollar matarvenjur.
Þar mun María fara yfir margt áhugarvert í þessum efnum og svara spurningum á borð við hvað er hollt mataræði?
Hverjar eru ráðleggingar landlæknis varðandi mataræði?
Hvernig fara þær ráðleggingar saman með kúrum eins LLK, Atkins og að fasta?
María mun einnig spyrja og svara þeirri spurningu hvort hægt sé að ná árangri og bæta næringarástand sitt án þess að fylgja einhverjum „kúr“.
Fyrirlesturinn verður á „léttum“ nótum og bent verður á áhugaverðar staðreyndir og jafnvel „sjokkerandi“ staðreyndir sem tengjast þessum málum.
Það eru allir velkomnir á fyrirlesturinn sem fram fer í aðstöðu CrossFit Ægis við Vesturgötu 119 – og hefst fyrirlesturinn kl. 20.00.
Frítt inn fyrir þá sem eru iðkendur í CrossFit Ægi en 1.500 kr. fyrir aðra áhugasama.