Bæjarstjórn Akraness fjallaði um málefni FVA á fundi sínum í dag.
Eins og fram hefur komið hafa kennarar í Fjölbrautaskóla Vesturlands lýst yfir vantrausti á skólameistara FVA, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur. Félag framhaldsskólakennara (FF) og Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS) hafa hvatt yfirvöld menntamála til að leysa nú þegar það erfiða ástand sem skapast hefur við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Á fundi bæjarstjórnar Akraness í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma af öllum 9 bæjarfulltrúum.
„Bæjarstjórnin á Akranesi lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu mála í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ljóst er að mikil óánægja ríkir innan skólans og allir að starfsmenn eru í slæmri stöðu, jafnt stjórnendur, sem kennarar og aðrir starfsmenn. Bæjarstjórn skorar á yfirvöld menntamála að grípa nú þegar til nauðsynlegra aðgerða svo sátt skapist innan starfsmannahópsins. Nauðsynlegt er að FVA fái gegnt sínu meginhlutverki, sem er að vera mikilvæg menntastofnun og máttastólpi fyrir samfélagið á Akranesi og Vesturlandi öllu.“