Gert ráð fyrir 400 milljónum kr. í Faxabraut í samgönguáætlun 2021


Í drögum að samgönguáætlun sem er til umfjöllunar á Alþingi Íslands kemur fram að gert er ráð fyrir 400 milljónum kr. í verkefni sem tengjast Faxabraut á Akranesi. Þetta kom fram í ávarpi Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra í gær í upphafi bæjarstjórnarfundar.

Eins og áður hefur komið fram hefur Akraneskaupstaður farið fram á að ríkið taki þátt í að greiða kostnað við nauðsynlegar sjóvarnir og hækkun á Faxabraut sem er þjóðvegur í þéttbýli.

Ef samgönguáætlunin verður samþykkt kæmu þessar 400 milljónir til úthlutunar árið 2021 og verkefnið yrði þá fullfjármagnað að sögn Sævars.

Akraneskaupstaður hefur nú þegar fengið 100 milljónir kr. í þetta verkefni sem verður úthlutað á þessu ári og því næsta.

Hönnunarvinna fyrir þær framkvæmdir sem þarf að fara í við Faxabraut hefur staðið yfir að undanförnu – og er hægt að bjóða verkið út snemma á næsta ári ef allt gengur að óskum varðandi þessar 400 milljónir kr. sem eru til umfjöllunar á Alþingi.