„Nýja hlutverkið leggst virkilega vel í mig“ segir Anna María Þráinsdóttir


„Ég er fædd á Akranesi og fór í gegnum alla skólagönguna hér áður en ég leiðin lá í Háskóla Reykjavíkur þar sem ég fór í byggingarverkfræði,“ segir hin 33 ára gamla Anna María Þráinsdóttir við skagafrettir.is.

Anna María tók nýverið við sem útibússtjóri Verkís á Vesturlandi af Gísla Karel Halldórssyni en starfsstöð hennar er á Stillholti 16-18.

„Nýja hlutverkið leggst virkilega vel í mig, þetta er mjög fjölbreytt starf og verkefnin ná um allt Vesturland. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta krefjandi verkefni,“ segir Anna María.

Eins og áður segir er Anna María frá Akranesi en hún fór í Grundaskóla og útskrifaðist árið 2006 af náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

„Eftir að ég lauk námi í byggingatæknifræði við HR árið 2011 fór ég í Meistaranám árið 2013 í sama fagi með áherslu á framkvæmdastjórnun við HR. Eftir útskrift starfaði ég hjá Norðuráli á Grundartanga, Skaganum hf. og Verkfræðiskrifstofu Suðurnesja. Í byrjun ársins 2019 hóf ég störf hjá Verkís. Ég er með skrifstofu á Stillholti 16-18 og það er alltaf hægt að „droppa“ inn í kaffibolla hjá mér og kynnast því sem við erum að gera í útibúinu,“ bætir Anna María við.


Ættartréð:

Anna María á eina dóttur, Halldóru Erlu, sem er 7 ára gömul. Foreldrar Önnu Maríu eru Þráinn Gíslason húsasmiður og María Sigurðardóttir.

Anna María og Halldóra Erla.