Ein fremsta þríþrautarkona Íslands æfir af krafti á Akranesi og slappar af í „nöfnu sinni“


„Eftir strangar æfingar er ómetanlegt að slappa af í nöfnu minni, henni Guðlaugu,“ segir afreksíþróttakonan Guðlaug Edda Hannesdóttir.

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda hefur á undanförnum dögum og vikum stundað æfingar á Akranesi. Hún er nýflutt til Íslands frá Óðinsvéum í Danmörku, þar sem hún og unnusti hennar Axel Máni, áttu heima.

Axel Máni er hugbúnaðarverkfræðingur og forritari hjá Dohop. Hann er með sterka Skagatengingu, en móðir hans er Helena Guttormsdóttir.

Afreksíþróttakonan, sem keppir fyrir Breiðablik í Kópavogi, hefur m.a. notað aðstöðuna í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum og stígakerfi bæjarins til hlaupaæfinga.

Guðlaug Edda stefnir á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó og hefur undanfarið ár tekið þátt í fjölda keppna víða um heim. Hún hefur m.a. æft með danska landsliðinu í þríþraut á undanförnum misserum.

Besti árangur hennar er 15. sæti á heimsbikarmóti sem fram fór í borginni Miyazaki í Japan í október s.l.

Guðlaug gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna á heimsmeistaramóti á vegum Alþjóða Þríþrautarsambandsins í tvíþraut á Fjóni í Danmörku sumarið 2019.

Það er stærsti sigur sem íslenskur þríþrautarmaður hefur unnið.