Ríkið sýknað af kröfum skólameistara FVA


Íslenska ríkið var sýknað af kröfu Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn í morgun.

Dómurinn er hér í heild sinni.

RÚV greindi fyrst frá þessu í hádegisfréttum í dag.

Ágústa Elín stefndi íslenska ríkinu vegna embættisfærslna Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra.

Ágústa Elín telur að Lilja hafi ekki staðið rétt að því að auglýsa starf hennar laust til umsóknar. Hún krafðist þess að viðurkennt yrði fyrir dómi að skipunartími hennar framlengdist út árið 2025. Og að ákvörðun ráðherra um að auglýsa starfið yrði felld úr gildi.

Ágústa Elín var skipuð í embætti skólameistara FVA frá 1. janúar 2015 til 31. desember á þessu ári. Í sumar ákvað menntamálaráðherra að auglýsa stöðu skólameistara frá og með áramótum.

Skipun skólameistara framlengist sjálfkrafa um fimm ár, nema að ráðherra auglýsi starfið. Ákveði ráðherra að gera það þarf hann að tilkynna skólameistaranum það eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartíminn rennur út. Ágústa taldi að við þetta hafi ekki verið staðið og stefndi því ríkinu.

Ágústu var tilkynnt um að starfið yrði auglýst með símtali frá Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, 30. júní. Henni barst ekki skriflega tilkynning um ákvörðunina fyrr en degi síðar. Þá voru innan við sex mánuðir þar til að skipunartíminn rann út. Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Ágústu Elínar og sýknaði því ríkið.

Gísli Guðni Hall, lögmaður Ágústu, segir í samtali við RÚV, að hann reikni með því að dómnum verði áfrýjað.