Fjórir öflugir kórar með sameiginlega jólatónleika í Tónbergi

Það verður mikið um að vera á sviðinu í Tónbergi næsta fimmtudag þar sem að fjórir öflugir kórar sameina krafta sína á jólatónleikum.

Karlakórinn Svanir, Kvennakórinn Ymur, Kór Saurbæjarprestakalls og Grundatangakórinn verða þar með sameiginlega dagskrá. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og er hægt að nálgast miða í forsölu á Bókasafni Akraness.

Þetta er í fimmta sinn sem þessir kórar halda sameiginlega tónleika og að venju er boðið upp á smákökur og kaffi þegar hlé verður gert á tónleikunum.

Dagskráin er með þeim hætti að hver kór syngur nokkur lög. Þegar því er lokið sameinast kórarnir í söng. Eitt af lögunum sem kórarnir syngja sameiginlega er frumsamið jólalag eftir Skagakonuna Valgerði Jónsdóttur. Lagið heitir „Takk fyrir jólin“ en Valgerður er kórstjóri Karlakórsins Svanir.

Aðrir kórstjóra eru Zsuzsanna Budai, Flosi Einarsson og Atli Guðlaugsson.

Patrycja Szalkowicz leikur einnig á þverflautu í nokkrum lögum Kvennakórsins.

Eins og áður segir er forsala aðgöngumiða er í Bókasafni Akraness.