Skagamenn syngja og safna fyrir Unicef með tónleikum þann 28. desember


Félagarnir Ólafur Dór Baldursson, Bjarki Þór Aðalsteinsson og Gunnar Ágúst Ásgeirsson ætla að láta gott af sér leiða á næstu dögum til styrktar Unicef. Þeir blása til jólatónleika þann 28. desember á Gamla Kaupfélaginu á Akranesi.

Brynja Valdimarsdóttir ætlar einnig að styðja við bakið á þríeykinu og syngja með þeim nokkur lög.

Húsið opnar kl. 20.00 en frítt er á tónleikana. Eins og nafnið gefur til kynnar á tónleikunum er um söfnunarátak að ræða. Tekið verður við frjálsum framlögum á staðnum.

Fyrir þá sem ekki geta mætt en vilja styrkja málefnið,
er hægt að millifæra á reikning Unicef
og merkja færsluna sem „tónleikar“:
0701-26-102000
Kt: 481203-2950.

„Við fórum af stað í þetta verkefni einfaldlega að því að þetta er eitthvað sem við elskum að gera. Að spila tónlist og það er kjörið tækifæri að gera þetta núna og til styrktar þeirra sem hafa það ekki eins gott og við. Hugmyndin er alfarið komin frá Gunnari. Bjarki Þór og Brynja styðja við bakið á okkur,“ segir Ólafur Dór við skagafrettir.is

Ólafur Dór segir að Valdimar Ingi Brynjarsson og félagar hans í Gamla Kaupfélaginu eigi líka stóran þátt í því að gera verkefnið að veruleika.

„Valdi og Gamla Kaupfélagið ætlar að hýsa tónleikana og taka ekki krónu fyrir það,“ segir Ólafur Dór en þeir félagar verða á flakki í dag og næstu daga að spila og syngja hjá fyrirtækjum sem hafa óskað eftir að styðja við verkefnið.

„Við reynum að hittast eins oft og við getum til að renna yfir lögin og hvernig uppröðunin á þeim verður. Við erum vægast sagt spenntir fyrir þessu. Við ætlum að hafa rosalega gaman, og vonumst til að sjá sem allra flesta. Barinn verður að sjálfsögðu opinn,“ segir í tilkynningu frá þeim Ólafi, Bjarka og Gunnari Ágúst.

Söfnun Unicef gengur út á að safna fyrir hlýjum teppum fyrir börn í neyð. Sjá myndina hér fyrir neðan.