Áfram Ísland – Elvar Örn er með sterka tengingu á Akranes


Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur leik á Evrópumeistaramótinu á næstu dögum. Þrátt fyrir að handbolti sé ekki stundaður á Akranesi eru tveir leikmenn liðsins með sterka Skagatengingu eins og sjá má í fréttinni hér fyrir neðan sem birt var fyrir ári síðan.

Elvar Örn Jónsson, skytta og leikstjórnandi, leikur sem atvinnumaður með Skjern í Danmörku.

Afi hans í móðurætt er Sigurður Guðmundsson, fyrrum skólastjóri og íþróttakennari á Leirá. Móðir Elvars er Ragnhildur Sigurðardóttir, margfaldur Íslandsmeistari í borðtennis, og afrekskona í ýmsum öðrum íþróttum.

Ragnhildur og Erna Sigurðardóttir, íþróttakennari við Grundaskóla, eru tvíburasystur. Jón Birgir Guðmundsson faðir Elvars er sjúkraþjálfari íslenska landsliðsins á HM.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/01/11/elvar-orn-landslidsmadur-i-handbolta-er-med-sterka-skagatengingu/

Elvar Örn er 22 ára gamall Selfyssingur sem um þessar mundir leikur með danska úrvalsdeildarliðinu Skjern. Elvar Örn kom til liðsins í sumar sem leið eftir að hafa verið burðarás í fyrsta Íslandsmeistaraliði Selfoss í handknattleik karla í vor.

Elvar Örn hóf að æfa handknattleik barn á aldri á Selfossi og lék með liðum félagsins upp í meistaraflokk. Hann átti einnig sæti í yngri landsliðum Íslands og var m.a. í bronsliði Íslands á HM U19 ára landsliða 2015.

Elvar Örn lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi í Sotra Arena 5. apríl 2018 og hefur síðan vart misst úr leik. Hann var valinn í æfingahóp fyrir EM 2018 en meiðlsi komu í veg fyrir þátttöku hans. Elvar Örn lék mikilvægt hlutverk með landsliðinu á HM í Þýskalandi fyrir ári síðan en það var hans fyrsta stórmót með A-landsliðinu. Hann skoraði 26 mörk í átta viðureignum. Alls eru A-landsleikirnir orðnir 27 og mörkin í þeim 81.

Elvar Örn var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar 2018 og 2019 auk þess að vera útnefndur verðmætasti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildarinnar í vor eftir að lið hans, Selfoss, varð Íslandsmeistari eftir úrslitarimmu við Hauka.