Club 71 skilar „Þorrablótinu“ af sér til 1979 árgangsins – miðasalan hefst á föstudag


„ Til að fyrirbyggja allan miskilning. Þá hefur hækkandi aldur okkar í Club 71 eða dvínandi þrek ekkert með það að gera að við séum að hætta að skipuleggja Þorrablót Akurnesinga,“ segir Bryndís Böðvarsdóttir í léttum tón við Skagafréttir.

Eins og margir vita hefur árgangur 1971 á Akranesi eða Club 71 staðið á bak við framkvæmdina á Þorrablóti Skagamanna allt frá því að blótið fór fyrst fram. Nú er komið að tímamótum hjá frumkvöðlunum og Þorrablótsboðhlaupskeflið verður afhent árgangi 1979 að loknum Þorrablótinu 2020.

„Við erum afar stolt af því að hafa náð að festa Þorrablót Skagamanna í sessi. Í framhaldinu ætlum við að snúa okkur að öðrum verkefnum. Þessi hópur sem ég tilheyri ætlar ekki að hætta að upphugsa einhver skemmtilegheit sem geta nýst bæjarbúum á Akrnaesi. Hugmyndirnar eru margar og tíminn mun leiða í ljós hvaða hugmyndir verða framkvæmdar,“ bætir Bryndís við.

Eins og áður segir mun árgangur 1979 taka við skipulagningu Þorrablótsins frá og með árinu 2021.

„Okkur skilst að orkan í þessum árgangi sé svipuð og í okkar árgangi. Við erum sannfærð um að þessi kraftmikli hópur eigi eftir að koma með ferskar og nýjar hugmyndir. Þorrablót Skagamanna verður áfram í traustum höndum.“

Miðasalan fyrir Þorrablótið 2020 hefst föstudaginn 10. janúar í útibúi Íslandsbanka á Akranesi.