Útgefendur fjögurra bæjarmiðla lýsa yfir vonbrigðum með þróun fjölmiðlafrumvarps Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í sameiginlegri umsögn sem þeir hafa sent frá sér. Skilafrestur á umsögnum vegna frumvarps til laga um fjölmiðla rennur út í dag.
„Við, útgefendur fjögurra bæjarmiðla; Hafnfirðings, Kópavogsblaðsins, Mosfellings og Skagafrétta, lýsum yfir vonbrigðum okkar með þróun fjölmiðlafrumvarps Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.
Frá vinstri: Hilmar Gunnarsson (Mosfellingur), Olga Björt Þórðardóttir (Hafnfirðingur), Sigurður Elvar Þórólfsson (Skagafréttir) og Auðun Georg Ólafsson (Kópavogsblaðið).
Að okkar mati á fjölmiðlafrumvarpið, eins og það blasir við okkur nú, ekki við í tilfellum héraðsfréttamiðla eins og okkar, sem eru þó þeir mikilvægustu í hverju nærsamfélagi, heldur virðist það frekar hannað fyrir stærstu fjölmiðla landsins.
Í 1. gr. 4. mgr. frumvarpsins kemur fram að styðja eigi við rekstur staðbundinna fjölmiðla eins og þá sem við rekum. Samkvæmt skilyrðum fyrir endurgreiðslu á kostnaði, þarf þó að gefa út 48 tölublöð á ári. Það gengur ekki upp ef standa á að útgáfu eins og þessari af metnaði og vandvirkni.
Bæjarblaðið Hafnfirðingur kemur út á tveggja vikna fresti (22 blöð á ári) og Kópavogsblaðið og Mosfellingur á þriggja vikna fresti (16 blöð á ári). Þessir fjölmiðlar halda úti virkum vefsíðum og Facebook-síðum fyrir bæjarbúa með fréttum, viðburðum, viðtölum og kynningum úr nærsamfélaginu. Skagafréttir eru virkur veffréttamiðill í sama tilgangi.
Í okkar tilfellum, eins og víðar á landinu, er um einyrkjastarfsemi að ræða, þar sem ein manneskja á launum heldur utan um allt sem kemur að daglegum rekstri, s.s. fréttaöflun, ljósmyndun, bókhald, innheimtu- og auglýsinga- og markaðsmál. Tvennt síðastnefnt hefur á undanförnum árum vegið þyngst í rekstri miðla okkar, því æ meira þarf að hafa fyrir auglýsendum, sem í síauknum mæli nýta aðrar leiðir og þá aðallega samfélagsmiðla.
Virðingarfyllst,
Auðun Georg Ólafsson, Kópavogsblaðinu.
Hilmar Gunnarsson, Mosfellingi.
Olga Björt Þórðardóttir, Hafnfirðingi.
Sigurður Elvar Þórólfsson, Skagafréttum.“