FastVest færir sig um set á Kirkjubraut 40


Það stendur mikið til á næstunni hjá Fasteignasölu Vesturlands á Akranesi. Fyrirtækið hefur verið með skrifstofu á Kirkjubraut 40 s.l. 25 ár.

Framundan eru flutningar hjá FastVest en fyrirtækið ætlar ekki að fara langt því nýja skrifstofan verður í rýminu þar sem að tryggingafélagið VÍS var áður með starfsstöð.

„Við verðum áfram á Kirkjubraut 40 og opnum í fallegu og endurnýjuðu húsnæði. Þar verðum við á sama stað og VERITAS lögmenn sem opnuðu þar nýverið skrifstofu á Kirkjubraut 40,“ segir Soffía Magnúsdóttir eigandi FastVest.

Ragnheiður Rún Gísladóttir og Stefán Bjarki Ólafsson starfa með Soffíu á fasteignasölunni.

„Að þessu tilefni ætlum við að færa Akurnesingum og nærsveitungum fallegt segul-dagatal fyrir árið 2020 líkt og við gerðum árið 2017. Við hjá FastVest hlökkum til að takast á við verkefni komandi árs með nýjum nágrönnum og þökkum öllum þeim fjölmörgu viðskiptavinum okkar fyrir ánægjuleg samskipti í gegnum árin,“ bætir Soffía við.