Bæjarstjórn Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum að starfsemi Fjöliðjunnar verði áfram á Dalbraut 10.
Fjöliðjan er vinnustaður þar sem boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. Í Fjöliðjunni á Akranesi fer fram fjölbreytt vinna og starfsfólkið tekst á við mörg ólík verkefni.
Skipulags- og umhverfisráð hafði áður samþykkt slíka tillögu og áframsent hana til endanlegs samþykkis til bæjarstjórnar.
Eins og áður hefur komið fram þá kom upp eldur í húsnæði Fjöliðjunnar í maí á síðasta ári. Í júní 2019 var komið upp vinnuaðstöðu til bráðabirgða í húsnæði Trésmiðjunnar Akurs.
Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram rökstuðningur við þá ákvörðun að færa starfsemi Fjöliðjunar á ný á Dalbrautina.
Ástæður þess eru m.a. eftirfarandi:
- Almenn ánægja stjórnenda og starfsmanna Fjöliðju með þá staðsetningu.
- Minni óvissa um tímasetningar þ.e. hvenær hægt sé að fara úr þeirri bráðabirgðaaðstöðu þar sem starfsemi Fjöliðjunnar er í dag.
- Starfsemi Fjöliðju hentar ekki á jarðhæð í íbúðarhúsnæði m.a. vegna hávaða og starfsemi á lóð.
- Ef óbreytt staðsetning verður samþykkt er ljóst að horfa þarf til stækkunar núverandi lóðar vegna hugmynda um stækkun húss og þá starfsemi sem nauðsynleg er innan lóðar.