„Allir aðilar eru búnir að gera þetta upp og fyrirgefa,“ segir Jón Þór Þórðarson formaður Körfuknattleiksfélags ÍA eftir atvik sem kom upp í bikarleik 10. flokks félagsins gegn Njarðvík á dögunum.
Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is þarf félagið að greiða sekt vegna framkomu stuðningsmanns ÍA en Jón Þór bætir við að stuðningsmaðurinn hafi beðið alla aðila afsökunar á framferði sínu.
Jón Þór skrifar eftirfarandi færslu á fésbókarsíðu skagafrettir.is
Bikarleikur ÍA gegn Njarðvík á miðvikudaginn sl. var æsispennandi frammá síðustu sekúndu og stemmingin í húsinu frábær. Foreldrar úr Njarðvík höfðu á orði að það væri úrvaldeildar stemming á Skaganum. Í lok leiks átti sér stað leiðinleg uppákoma þar sem ungur og ástríðufullur stuðningsmaður ÍA í hvatvisi missti stjórn á sér. Þetta hafði áhrif á leikinn sem Njarðvík vann 69 – 68. Það var tekið á málinu af ábyrgð og reynt að vinna úr því á uppbyggilegan hátt. Allir aðilar eru búnir að gera þetta upp og fyrirgefa.
Við lærum af þessu og höldum áfram. Einbeitum okkur nú að heimaleik okkar gegn Þór Akureyri á morgun 24/1 kl: 19:30 á Jaðarsbökkum. Það verður vonandi áfram góður stuðningur úr pöllunum. Áfram ÍA!
Yngvi Gunnlaugsson, fyrrum leikmaður ÍA og þjálfari 10. flokks Njarðvíkur segir að félagið finni til með unga manninum sem missti stjórn á skapi sínu í lok leiksins.
„Við vitum að honum gekk ekkert ill til og biðjum fyrir bestu kveðjur til hans. Við sérstaklega leiðir fyrir hans hönd. Fljótlega eftir leik sendi hann leikmanni okkar skilaboð þar sem hann bað afsökunar. Það finnst mér lýsa innra manni. Ég vona að þetta mál fá farsælan endi,“ skrifar Yngvi m.a. en allt skeytið frá Yngva má lesa hér fyrir neðan í skjáskotinu.