Andrea Þ. Björnsdóttir er Skagamaður ársins 2019


Andrea Þ. Björnsdóttir var í gær útnefnd sem Skagamaður ársins 2019. Greint var frá valinu á Þorrablóti Skagamanna að viðstöddu fjölmenni í gær í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Það var Elsa Lára Arnardóttir, bæjarfulltrúi, sem greindi frá valinu. Hér fyrir neðan er ræðan sem Elsa Lára flutti í gær að því tilefni.

Myndirnar tók Gunnhildur Lind Hansdóttir.


Kæru Skagamenn.

Nú er komið að því að tilkynna hver Skagamaður ársins er.

Skagamaður ársins er fæddur í Grundarfirði en flutti hingað á Flórídaskagann fyrir mörgum árum síðan. Hefur búið hér á Skaganum og utan hans frá þeim tíma en flutti aftur heim fyrir nokkrum árum síðan.

Skagamaður ársins hefur starfað í hinum ýmsu störfum, m.a. í skóla, við heimilishjálp og við HB Granda.

Áhugamálin eru samvera með börnum og barnabörnum, prjónaskapur, bakstur og að láta gott af sér leiða. Undanfarin ár hefur Skagamaðurinn svo sannarlega látið gott af sér leiða með því að safna fyrir þá sem þurfa að takast á við stór verkefni í lífinu eins og alvarleg veikindi. Ég veit að stuðningurinn hefur skipt máli og sá hlýhugur sem fylgir í verki fer ekki fram hjá neinum.

Leiðarljós Skagamanns ársins í þessu verkefni er að gefa til baka þann stuðning sem hann fékk fyrir sjálfan sig og börnin sín fyrir mörgum árum síðan. Þetta er merki um fallegt hjartalag og einstaka hugsun.
Samkvæmt mínum upplýsingum elskar Skagamaður ársins bleikt og engla.
Skagamaður ársins gengur oft undir nafninu Amma Andrea og nafnið er til komið vegna þess að hún er tilbúin til að vera amma allra barna sem þurfa á að halda.

Ég legg til að við bjóðum Skagamann ársins Andreu Þ. Björnsdóttur velkomna hingað upp á svið með hressilegu lófaklappi.


Vertu velkomin kæra Amma Andrea, Andrea Þ. Björnsdóttir.


Heiðrún Jónsdóttir samdi þessa vísu um Skagamann ársins 2020.

Flutti hingað forðum daga
fann sinn bústað hér á Skaga .
Oft þó væri ekki gaman
endum frægum ná hér saman,
og fengjust engir fullir sjóðir
fundust aðrir kostir góðir.

Ýmis störfin unnið hefur
af sér hlýju og kærleik gefur.
Góðverkum vill gjarnan sinna
gleðja þá sem hafa minna.
Aðstoðin var áður þegin,
annarra nú greiðir veginn.

Allskonar vill englum safna
aldrei bleikum litum hafna.
Elskar sína afkomendur,
öðrum börnum réttir hendur.
Faðmar krakkaanga alla,
ömmu hana margir kalla.

Hér má sjá myndband frá afhendingunni.


Þórður Guðnason var sá fyrsti sem var útnefndur Skagamaður ársins á Þorrablóti Skagamanna árið 2010.

2018: Bjarni Þór Bjarnason
2017: Sigurður Elvar Þórólfsson
2016: Dýrfinna Torfadóttir
2015: Erna Guðnadóttir og Einar J. Ólafsson
2014: Steinunn Sigurðardóttir
2013: Ísólfur Haraldsson
2012: Hilmar Sigvaldason
2011: Haraldur Sturlaugsson
2010: Þórður Guðnason