Hjartans þakkir kæru Skagamenn!


Þorrablót Skagamanna fór fram í gær í íþróttahúsinu við Vesturgötu og var gríðarlega góð stemning að venju. Þetta var síðasta blótið þar sem að frumkvöðlar Þorrablóts Skagamanna, Club 71, standa vaktina hvað varða skipulag og framkvæmd. Club 71 sendi frá sér eftirfarandi kveðju í tilefni þeirra tímamóta sem eru framundan.


Þið eigð heiður skilin fyrir að mæta á Þorrablót Skagamanna og gera þennan magnaða menningarviðburð jafn stórkostlegan og raun ber vitni!
Því án jákvæðra og fjörugra gesta verður engin veisla 🙂


Nú er frágangur á Vesturgötunni að hefjast eftir Þorrablót Skagamanna 2020. Þvílík skemmtun og veisla sem þessi 600 manna viðburður er orðinn! Það eru varla til orð til að lýsa og andrúmsloftinu í salnum í gær!


Eftir 10 ár verða nú breytingar á Þorrablóti Skagamanna.

Hópur úr árgangi 71 keyrði þessa hugmynd í gang fyrir áratug og hefur haldið utan um málin síðan þá í samvinnu við fjöldan allan af góðu fólki. Umfram allt er að Skagamenn og góðir gestir komi saman, njóti samverunnar og njóti lífsins og það hefur tekist ljómandi vel. Ekki er nú verra þegar allt þetta fer saman í þágu góðra málefna en á þessum 10 árum hafa safnast milli 20-30 milljónir sem runnið hafa til góðgerða- og íþróttamála á Akranesi.


Við í Club 71 (því miður náðust ekki allir á myndina) viljum þakka kærlega fyrir okkur – öllum þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóginn með okkur til að gera þetta allt að veruleika í gegnum árin en ekki síður þeim sem hafa komið og notið með okkur á blótinu sjálfu – og styrkt þannig gott málefni.


Árgangur 79 tekur nú við boltanum og mun án efa gera það með glæsibrag!
Hjartans þakkir fyrir okkur kæru Skagamenn nær og fjær!


Árgangur 71 – Club71 og Dræsurnar!