Stórsigur ÍA gegn Blikum í úrslitum fotbolti.net mótsins


Karlalið ÍA gerði sér lítið fyrir og sigraði á Fotbolti.net mótinu sem lauk í kvöld með úrslitaleik Breiðabliks og ÍA. Leikurinn fór fram á gervigrasinu á Kópavogsvelli.

Það gekk mikið á í leiknum, tvö rauð spjöld fóru á loft, en Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði þrennu fyrir ÍA í 5-2 sigri liðsins.

Tryggvi Hrafn skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu, Marteinn Theodórsson bætti við öðru marki á 29. mínútu. Tryggvi Hrafn bætti við sínu öðru marki á 36. mínútu og staðan var 3-0 fyrir ÍA í hálfleik.

Á 52. mínútu landaði Tryggvi þrennunni og kom ÍA í 4-0. Steinar Þorsteinsson bætti við fimmta markinu úr vítaspyrnu á 66. mínútu.

Það sauð upp úr þegar um stundarfjórðungur var eftir leiknum. Guðjón Pétur Lýðsson leikmaður Breiðabliks fékk rautt spjald fyrir að slá leikmanna ÍA og Brynjólfur Darri Willumsson fékk rautt spjald mínútu síðar. Blikar voru því tveimur færri síðustu mínúturnar í leiknum.