Skagamaður ársins fær byr undir báða vængi með aðstoð fyrirtækja á Akranesi


„Viðtökurnar hafa verið frábærar, þetta er æði, og mér líður eins og barni sem hefur fengið fullt af sælgæti,“ segir Andrea Þ. Björnsdóttir Skagamaður ársins 2019. Andrea hefur á undanförnum árum látið gott af sér leiða með því að selja sælgæti til styrktar góðum málefnum. Andrea gerir þetta allt saman í sjálboðavinnu og vakið eftirtekt fyrir framlag sitt til samfélagsins á Akranesi.

Andrea hlaut titilinn fyrir óeigingjarnt starf sitt við að aðstoða þá sem glíma við alvarleg veikindi.

„Ég nýti frítíma minn í að selja sælgæti og alls konar punterí hér í bænum og að mestu leyti hafa peningarnir runnið til fólks með börn sem eru að berjast við krabbamein og svo annarra einstaklinga sem vantar hjálp, en krabbinn er mjög stór þáttur. Ég hef gert þetta í nokkur ár og ég get ekki lýst því en þetta gefur mér alveg rosalega gott í hjartað.“

Andrea skoraði á fyrirtæki á Akranesi í ræðu sinni á Þorrablóti Skagamanna 2020 þegar hún tók við viðurkenningunni Skagamaður ársins 2019. Ósk Andreu var sú að fyrirtæki myndu taka vel í það að styrkja málefnið og það er óhætt að segja að verkefni Andreu hafi fengið byr undir báða vængi. Alls hafa 18 fyrirtæki ákveðið að styðja við bakið á Andreu á næstu mánuðum og hún á von á því að fleiri bætist í hópinn á næstunni.

„Það munar öllu að fá þessu fyrirtæki til þess að borga Góu reikninginn þegar ég kaupi sælgætið af þeim,“ segir Andrea.

„Með þessum stuðningi þá fær sá sem safnað er fyrir 1000 kr. af hverjum lakkríspoka sem er seldur í stað þess að fá 500 kr. Ég kaupi fyrir 35 þúsund í hvert sinn sem ég fer í Góu og fyrirtækin fá kvittun og nafn sitt í auglýsingu í Skessuhorni í desember. Þessi viðbrögð gefa mér helling, ég fæ góða tilfinningu í hjartað og saman getum við Skagamenn gert helling. Með þessu sýnum við að okkur er ekki sama um náungann,“ bætir Andrea við og óskar eftir því að fleiri fyrirtæki taki þátt í þessu verkefni.

Eftirfarandi fyrirtæki hafa nú þegar ákveðið að styðja við Andreu í þessu verkefni.

Steðji
Hróar
Gamla Kaupfélagið
SF Smiðir
Skagamálun
Renova
Uppbygging
Gísli Jónsson
3 málarar
Mozart
Rakarastofa Gísla
Vinir Ólavíu
LH Bókhald
@Home
Fasteignasalan Hákon
ÞÞÞ
Skaginn hf.
Halla-Mál