Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir hefur hefur starfað sem settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands frá árinu í þrjú ár eða frá árinu 2017. Hún tók við starfinu eftir að Guðjón S. Brjánsson tók sæti á Alþingi sem þingmaður Samfylkingarinnar.
Nýverið var staða forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands auglýst til umsóknar.
Samkvæmt frétt á vef RÚV var Jóhanna Fjóla sú eina sem sótti um embættið. Það verður því einfalt fyrir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að skipa í embættið til næstu fimm ára. Svandís mun greina frá ákvörðun sinni fljótlega en áður en að því kemur mun nefnd á vegum ráðuneytisins fara yfir umsóknina.
Jóhanna Fjóla var sett í embætið til eins árs í febrúar á síðasta ári. Þá sóttu fjórir um stöðuna.
Jóhanna Fjóla hefur starfað við Heilbrigðisstofnun Vesturlands frá því að hún var sett á fót árið 2010, áður sem framkvæmdastjóri hjúkrunar- og rekstrar og sem verkefnastjóri þróunar- og gæðamála.
Hún var verkefnastjóri hjúkrunar árin 2000 – 2009 en fyrir þann tíma starfaði hún við Sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún var m.a. hjúkrunarforstjóri um eins árs skeið.
Stofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands sem nær yfir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra.
Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum.