Stutt saga á Akranesi á enda – Ísfiskur gjaldþrota


Fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur hf. hefur óskað eftir því að vera tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram á skessuhorn.is og RÚV.

Fyrir fjórum mánuðum, eða í lok september á síðasta ári, var 60 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp störfum.

Á þeim tíma leitaði fyrirtækið eftir aðstoð frá Byggðastofnun um endurfjármögnun. Stofnunin tók jákvætt í það að veita lán til fyrirtækisins að uppfylltum skilyrðum.

Samkvæmt frétt á skessuhorn.is hafði fyrirtækið uppfyllt öll skilyrðin en lánið var ekki veitt þar sem að ekki tókst að útvega fé fyrir húsnæðinu sem fyrirtækið starfaði í hér á Akranesi.

Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda haustið 2016 og flutti starfsemi sína frá Kársnesi í Kópavogi árið 2018.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir í samtali við RÚV að enn sé verið að taka saman nákvæmlega hversu mikið fyrirtækið skuldar fyrrum starfsfólki, meðal annars í laun og orlofsgreiðslur. Það séu þó hátt í 40 milljónir. Hann segir þá að Verkalýðsfélagið ætli að lána félagsmönnum sem störfuðu hjá Ísfiski 250 þúsund krónur með kröfu í ábyrgðasjóð launa. Það hefur ekki verið hægt hingað til þótt rúmir fjórir mánuðir séu frá uppsögnum þar sem Ísfiskur varð að óska eftir gjaldþrotaskiptum svo hægt væri að gera kröfu í ábyrgðasjóðinn.

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/02/27/24-ny-storf-a-akranesi-hja-isfiski/
http://localhost:8888/skagafrettir/2017/09/01/bolfisksvinnsla-hefst-ad-nyju-isfiskur-kaupir-husnaedi-hb-granda/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/10/18/isfiskur-fekk-jakvaed-svor-fra-byggdastofnun-tekst-ad-bjarga-tugum-starfa/