Myndband: Mikið tjón hjá BM Vallá – „Eitt versta veður sem hefur komið“


Töluvert tjón varð hjá BM Vallá í nótt og í morgun þegar mikið hvassviðri gekk yfir. Rúður brotnuðu í skrifstofuhúsnæði, fjölmargar veggeiningar fuku og klæðning skemmdist töluvert.

„Ég held að þetta sé eitt versta veður sem hefur komið hérna á þessu svæði frá því að við hófum starfsemi hér á svæðinu við Höfðasel,“ segir Jón Þór Þorgeirsson steypustöðvarstjóri hjá BM Vallá við skagafrettir.is.

„Það jákvæða er að það slasaðist enginn. Við gerðum ráðstafanir í gær að vera ekki með starfsfólk á svæðinu í þessum veðurham. Það var mikið af glerbrotum og drasli inn á skrifstofunum þar sem að rúðurnar brotnuðu. Ég veit ekki hvort það var grjót eða eitthvað annað sem skall á rúðunum. Þetta gerðist í nótt eða snemma í morgun, Veggeiningarnar sem fukum um koll eru margar hverjar um 20 tonn og það hefur því mikið gengið á. Það er allt annað veðurlag hér á Höfðaseli í þessari vindátt en t.d. á Akranesi. Það myndast strengur í SA-áttinni sem kemur hér niður af Akrafjallinum og magnar upp vindinn. Þetta er mín tilfinning að þetta sé eitt versta veður sem við höfum upplifað á þessu svæði,“ sagði Jón Þór Þorgeirsson.