Gistiheimilið Stay West til sölu – „Ýmsar ástæður fyrir þessari ákvörðun“


Gistiheimilið Stay West við Suðurgötu var í dag auglýst til sölu hjá fasteignasölunni Heimili.

Hjónin Eggert Hjelm Herbertsson og Ingibjörg Valdimarsdóttir hafa á undanförnum árum rekið þrjár gistieiningar á Akranesi undir merkjum fyrirtækisins og fyrirtækið er einnig með gistiheimili í Borgarnesi. Eggert Hjelm segir í samtali við Skagafréttir að ýmsar ástæður séu því að þeim hjónum þyki þetta vera rétti tímapunkturinn að selja gistiheimili Stay West við Suðurgötuna. 

„Í fyrsta lagi höfum við staðið í þessum skemmtilega rekstri samhliða annarri vinnu í fimm ár. Það hefur verið skemmtileg að byggja þetta upp en við viljum koma þessum áhugaverða verkefni til réttra aðila.  Það eru tækifæri framundan í ferðaþjónustu á Íslandi og á Akranesi.  

Í öðru lagi eru framundan breytingar á leigueiningum sem við höfum rekið samhliða gistiheimilinu við Suðurgötu. Við höfum verið með leigusamningu við Akraneskaupstað varðandi Kirkjuhvol. Það er ljóst að sá leigusamningur verður ekki endurnýjaður þar sem að húsið verður sett í söluferli á næstu misserum. Við höfum einnig verið með heimavistina hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í leigu yfir sumartímann. Næsta sumar verður farið í miklar endurbætur á því húsnæði og allar líkur á því að heimavistin verði undirlögð í framkvæmdum sumarið 2020. Þessar breytingar vega einnig þungt í ákvörðun okkar,“ segir Eggert Hjelm sem starfar sem framkvæmdastjóri Tölvuþjónustunnar og Ingibjörg er framkvæmdastjóri Ritari.is, en bæði fyrirtækin eru í sama húsi við Esjubraut á Akranesi.