Gengu óvart frá Akranesi til Ólafsvíkur á Tenerife


Lang elstu starfsmenn Skagafrétta, Kristín Eyjólfsdóttir og Þórólfur Ævar Sigurðsson, létu sig hverfa á heitari slóðir í byrjun febrúar.

Markmið ferðarinnar var fyrst og fremst að fá hvíld frá amstri vefmiðilsins á spænsku eldfjallaeyjunni Tenerife.

Ferðin var vel skipulögð í alla staði. Og þá sérstaklega hreyfistundirnar sem voru allmargar á þeim 12 dögum hjónin á Bjargi við Laugarbraut dvöldu á Tenerife.

Gamall Iphone sími, klassísk dagbók og vel yddaður blýantur voru verkfærin sem notuð voru til hins ýtrasta til þess að skrá vegalengdirnar sem þau gengu á hverjum degi.

Eftir ítarlega útreikninga þegar heim til Íslands var komið var niðurstaðan áhugaverð.

Alls lögðu þau að baki 157 km. í göngutúrum á 12 dögum sem er sama vegalengd og frá Akranesi og til Ólafsvíkur.

Lengsti göngutúrinn var 25 km. en samkvæmt heimildum Skagafrétta voru hjónin á Bjargi illa villt á þeim göngutúr eða í það minnsta aðeins af leið.

Miðað við venjulegan gönguhraða þá væru hjónin á Bjargi rétt tæplega eina vinnuviku að rölta frá Akranesi til Ólafsvíkur.

Í þeim útreikningi er ný skilgreining á vinnuviku í nýgerðum lífskjarasamningnum notuð til viðmiðunar.