Anna Lilja og Iddi Biddi á verðlaunapalli á Íslandsmótinu í uppistandi


Akranes kom vel út á fyrsta Íslandsmótinu í uppistandi sem fram fór í gær í Háskólabíói.

Greipur Hjaltason stóð uppi sem sigurvegari og fékk hann titilinn Íslandsmeistari í uppistandi og 500.000 kr. verðlaunafé.

Þess má geta að móðir Greips, Ethel Karlsdóttir, býr á Akranesi og Greipur bjó á Skaganum um tíma.

Anna Lilja Björnsdóttir varð önnur en hún tengist Akranesi sterkum böndum í gegnum foreldra sína. Skagamaðurinn Björn Þorri Viktorsson er fæddur á Akranesi og Salvör Lilja Brandsdóttir móðir hennar stundaði nám hér við FVA á sínum tíma. Anna Lilja er í dag búsett á Akranesi.

Í þriðja sæti varð Iddi Biddi eða Ingi Björn Róbertsson blikksmiður hjá Blikksmiðju Guðmunar á Akranesi. Iddi Biddi er fæddur í Borgarnesi en hefur sem betur fer alið manninn og þroskast hér á Akranesi í mörg ár.

Alls voru því fjórir keppendur af alls tíu í þessari keppni sem tengjast Akranesi með einhverjum hætti.

Lára Magnúsdóttir, eða Lollý Magg, tók einnig þátt. Hún sló í gegn í fyrra í einu af aðalhlutverkunum í Litlu Hryllingsbúðinni sem Skagaleikflokkurinn sýndi í Bíóhöllinni fyrir fullu húsi.

Vel gert og til hamingju Greipur, Anna Lilja, Iddi Biddi og Lollý Magg.

„Ég hef ekki gerst svo fræg að vera kölluð uppistandari. Ég hef alltaf haft gaman af textasmíði og uppistandi en svosem aldrei gefið mig í það. Þegar ég var yngri hafði ég gaman af því að yrkja skondin kvæði við allskyns tilefni og notaði húmor til þess að takast á við allskyns verkefni daglegs lífs. Í nokkur skipti hef ég verið veislustjóri, kynnir á samkomum og slíkt en aldrei undir þeim formerkjum að ætla að vera fyndin. Í gegnum tíðina hef ég verið svo lánsöm að fá að starfa með flottu fólki og í aðstæðum sem að krefjast þess að tala fyrir framan aðra. Mínir styrkleikar liggja í að búa til góða stemningu á viðburðum/í hópum og létta stemninguna þegar á þarf. Eftir því sem að ég verð eldri bætast sífellt við fleiri atriði og aðstæður í lífinu sem að eru kómískar á sinn hátt og ég myndi segja að minn húmor gangi mest út á það að gera góðlátlegt grín að hversdagslegum hlutum, ákvörðunum og aðstæðum,“ segir Anna Lilja í kynningu á fésbókarsíðu keppninnar.

Kynnar keppninnar voru þau Kjartan Atli Kjartansson og Júlíana Sara Gunnarsdóttir en í dómnefnd sátu þau Logi Bergman Eiðsson, Fannar Sveinsson, Gummi Ben, Pálmi Guðmundsson, Steinunn Camilla Sigurðardóttir og Ragna Gestsdóttir.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/11/17/eg-var-einu-sinni-mjog-litid-og-feimid-blom-sem-kom-ekki-upp-ordi-fyrir-framan-folk/