Myndband: Svona er staðan á Bjarna Ólafssyni í „skítabrælu“


Skipverjar á Bjarna Ólafssyni Ak 70 hafa á undanförnum vikum barist við vond veður á kolmunnaveiðum við Porcupine Bank útaf ströndum Írlands.

Bjarni Ólafsson kom til hafnar í Neskaupstað nýverið með um 1.700 tonn af kolmunna eftir gríðarlega erfiða siglingu af miðunum við Porcupine Bank.

Í færslu á fésbókarsíðu Bjarna Ólafssonar kemur fram að skipið hafi siglt í mótvindi sem var á bilinu 30-40 metrar á sekúndu. Og ölduhæðin var um 10 metrar – sem er á við þriggja hæða fjölbýlishús.

„Við erum núna á leiðinni aftur á Porcupine Bank og er spáin ekkert spes næstu daganna sem kemur ekkert á óvart á þessu svæði þar sem lognið er alltaf á hröðum flótta , annars erum við nokkuð góðir,“ segir í fésbókarfærslu Bjarna Ólafssonar.