Aðstöðuleysi Siglingafélagsins Sigurfara gæti siglt félaginu í strandMikill kraftur var í starfi Siglingafélagsins Sigurfara á síðastliðnu sumri og komust færri börn – og unglingar að á námskeiðum félagsins en vildu. Forsvarsmenn félagsins hafa á undanförnum vikum og mánuðum ýtt á bæjaryfirvöld að huga betur að aðstöðumálum félagsins – sem er engin eins og staðan er í dag.

Guðmundur Benediktsson formaður Sigufara vonast til þess að bæjaryfirvöld taki vel í óskir félagsins um bætta aðstöðu fyrir ört vaxandi íþróttafélag.

„Félaginu sárvantar aðstöðu svo hægt verði að byggja upp starfsemi þess. Bátar og búnaður eru í vetrargeymslu í skjóli fyrir veðrum. Við sendum nýlega bæjarráði erindi um aðstöðu- og húsnæðismál félagsins – og í stuttu máli sagt þá er Siglingafélagið Sigurfari ekki með neina aðstöðu fyrir starf sitt,“ segir Guðmundur formaður við Skagafréttir

Guðmundur bætir því við að félagið hafi bent bæjarráði á það jákvæða sem gerst hafi í uppbyggingu annarra félaga innan raða ÍA undanfarin misseri.

„Við gleðjumst yfir þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað, má þar nefna nýja frístundamiðstöð við Garðavöll, nýtt fimleikahús og væntanleg uppbygging við Jaðarsbakka. Í erindum okkar höfum við bent á hentugt húsnæði við höfnina sem er til sölu og myndi henta starfseminni ágætlega“

Eins og áður segir hefur starf Sigurfara verið blómlegt og þá sérstaklega s.l. sumar.

„Við héldum fimm siglinganámskeið og þau hefðu vel getað verið mun fleiri. Slíkur var áhuginn. Næsta sumar eru mörg verkefni á dagskrá. Æfingabúðir hjá Siglingasambandi Íslands, árleg Faxaflóamót kjölbáta og það er stefnt á að halda 8-10 siglinganámskeið fyrir börn – og unglinga. Það gefur auga leið að félag með enga aðstöðu er takmörkunum háð.“

Akraneshöfn eða á því svæði er að mati Guðmundar besti kosturinn fyrir uppbyggingu á aðstöðu fyrir Sigurfara. „Í framtíðinni er það okkar mat að besti kosturinn sé að byggja upp fyrir félagið við Akraneshöfn eða á því svæði. Þar er sjósetningaraðstaðan best, og þar verði rýmir fyrir sem flestar tegundir sjóíþrótta. Við höfum sent erindi til Akraneskaupstaðar og Faxaflóahafna þar sem við höfum óskað eftir því að gert verði ráð fyrir starfsemi félagsins í skipulagsvinnu hafnarsvæðisins,“ sagði Guðmundur að lokum