Mokveiði hjá Eiríki Jónssyni og áhöfn hans á Akurey


Skagamaðurinn Eiríkur Jónsson var skipstjóri í síðasta túr á Akurey AK sem kom með fullfermi til hafnar í Reykjavík. Allir þrír ísfisktogarar Brims komu til löndunar með fullfermi í síðustu viku eða sem nemur 600 tonnum. Þetta kemur fram á vef Brims.

,,Það hefur verið mjög góður afli síðustu vikur og ætli það sé ekki kominn mánuður með sæmilegu veðri og góðum afla,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey en áhöfn hans kom með 200 tonn til löndunar í síðustu veiðiferð ísfiskstogarans glæsilega.

Að sögn Eiríks hafa togararnir haldið sig syðra og svo góður gangur hefur verið í veiðunum að skipin hafa yfirleitt náð að fylla á fjórum veiðidögum í stað þeirra fimm sem áætlaðir eru.

,,Það veiðast flestar helstu fisktegundir jöfnum höndum. Við vorum t.d. með 50 tonn af þorski í þessum túr og 70 tonn í túrnum á undan. Karfi veiðist jafnt og þétt og það hafa komið mjög góð ufsaskot nokkuð reglulega. T.d. var mjög góð ufsaveiði á Tánni í nokkra daga um daginn en við vorum ekki þar. Þá veiddist stórufsi í nokkra daga á Eldeyjarbankanum og þar var einnig mjög góð þorskveiði sem og í Jökuldjúpinu,” segir Eiríkur Jónsson.