„Við fengum frábær viðbrögð við uppátækinu í Smiðjuloftinu“„Við erum búin að fá frábær viðbrögð við uppátækinu og erum hæst ánægð með þessa frumraun okkar í streymismálum. Aldrei að vita nema við gerum meira af þessu,“ segir Valgerður Jónsdóttir listamaður í Smiðjuloftinu á Akranesi.

Viðburður á vegum Smiðjuloftsins var í beinni vefútsendingu um helgina þar sem að Þórður Sævarsson og Valgerður léku lög fyrir þá sem á horfðu. Sylvía dóttir þeirra hjóna sýndi klifur í aðstöðu Klifurfélags Akraness og Brynjar Mar Guðmundsson listamaður var einnig við vinnu sína á svæðinu.
Valgerður segir söguna á bak við viðburðinn.

„Forsagan á bak við þetta allt saman er sú að við fengum styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að halda nokkra menningarviðburði hjá okkur. Sá fyrsti átti að vera svona blandaður viðburður þar sem myndlistarmaðurinn Brynjar Mar Guðmundsson málaði verk í rými Smiðjuloftsins fyrir opnum dyrum, þá yrði lifandi tónlist og léttar veitingar ofl. skemmtilegt. Við þurftum svo að laga okkur að samkomubanninu sem er í gildi, þannig að við ákváðum að prófa að streyma svona blöndu af myndlist, tónlist, spjalli og smá klifri. Annars er það að frétta að Smiðjuloftið verður lokað á meðan samkomubannið er í gildi. Við notum tímann til að þrífa og snurfusa hjá okkur og skipuleggja eins og hægt er. Við getum ekki beðið eftir að fá að opna aftur og fá til okkar fullt af fólki,“ segir Valgerður Jónsdóttir við skagafrettir.is