„Bakvarðasveit Höfða“ sett á laggirnar – þú getur aðstoðað og skráð þig!


Hjúkrunarforstjóri Höfða, Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, sendi eftirfarandi tilkynningu varðandi stofnun Bakvarðasveit Höfða á tímum Covid-19 veirunnar.


Góðan dag kæru vinir og velunnarar

Hjúkrunar og dvalarheimilið Höfði hefur í ljósi stöðunnar sem uppi er ákveðið að kalla eftir vöskum einstaklingum sem væru tilbúnir til að vera í Bakvarðasveit Höfða ef upp koma þær aðstæður að okkar öflugu starfsmenn forfallast.

Okkar starfsemi eru þannig að það er ekki hægt að minnka eða hætta þjónustu og við þurfum að hafa starfsfólk til taks allan sólarhringinn alla daga.

Starfsemin nær yfir marga þætti, hjúkrun, umönnun, aðhlynningu, félagsstarf og margt fleira. Og eins og á öðrum heimilum þá þarf að elda mat og þrífa.

Við leitum því til allra þeirra sem hafa tök á að veita tímabundna aðstoð með skömmum fyrirvara og mynda þannig bakvarðasveit um okkar mikilvægu starfsemi.

Reynsla af störfum er kostur en ekki skilyrði. Við viljum vera viðbúin hinu versta en vonum það besta.

Þeir sem vilja skrá sig í bakvarðasveitina sendi póst á netfangið [email protected] merkt bakvarðasveit.

Með vinsemd og þakklæti
Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir
Hjúkrunarforstjóri Höfða