Sú breyting verður á upplýsingagjöf um Covid-19 um smit á Vesturlandi að nú er eingöngu vísað til upplýsinga sem koma fram á síðunni covid.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Vesturlandi.
Samkvæmt heimildum Skagafrétta hefur ekkert smit komið upp á Akranesi enn sem komið er.
Alls hafa 802 greinst með kórónuveiruna hér á landi og er þetta fjölgun um 65 á einum sólarhring en þetta eru mun færri sem hafa greinst í dag miðað við gærdaginn. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum á covid.is.
Fram til dagsins í dag hefur Lögreglan á Vesturlandi birt tölulegar upplýsingar þar sem að smit í hverju bæjarfélagi fyrir sig hafa verið tilgreind. Framvegis verða ekki slíkar upplýsingar birtar eins og sjá má í tilkynningunni hér fyrir neðan.
Alls hafa 10 smit verið greind á Vesturlandi og eru 290 einstaklingar í sóttkví.
Það er að fyrirmælum sóttvarnalæknis, Þórólfs Guðnasonar, sem ber á ábyrgð á sóttvörnum í landinu samkvæmt lögum nr. 19/1997 undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Hann skipuleggur og samræmir sóttvarnir á landinu.