„Verðum að standa saman í þessu“ – Lögreglan ítrekar að börn virði samkomubannið


Borið hefur á því að börn – og unglingar hópi sér saman á meðan samkomubanninu stendur. Hér á Akranesi hefur slíkt átt sér stað og þar sem að veðrið er gott nú um stundir eru töluverðar líkur á því að slíkt geti gerst á ný.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur minnt fólk á mikilvægi þess að passa að börn hópi sér ekki saman á meðan samkomubanni stendur.

Í Facebook færslu lögreglunnar frá því á föstudag segir að lögreglan hafi því miður þurft að hafa afskipti af „frekar stórum hópum“ þann daginn.

„Þetta verður erfiðara eftir því sem veðrið verður betra en við verðum að standa saman í þessu. Þið megið endilega deila þessu eins vel og hægt er,“ segir í færslunni.

Eftirfarandi kemur fram á Covid.is:

Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum.


Í færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir:

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Við höfum fengið ábendingar að töluvert af krökkum eru að koma saman á leikvöllum, þá aðallega á sparkvöllum bæjarins. Í langflestum tilfellum yrðum við himinlifandi yfir þessu en því miður verðum við að biðja ykkur að ræða vel við börnin ykkar því um þetta gilda þær fjöldatakmarkanir sem fram koma í samkomubanninu sem í gildi er meðan þetta ástand varir. Góð samskipti og fræðsla eru bestu leiðirnar í því. Við erum stödd á rauðu ljósi en það kemur grænt aftur. Takk fyrir samstarfið og hjálpina. Megið deila þessu með jákvæðni fyrir okkur