Skagamaður á Spáni sýnir listaverkin í beinni á netinu – Heimþrá opnar á föstudag


Skagamaðurinn Smári Jónsson ætlar að lífga upp á tilveruna á þessum tímum með því að opna myndlistasýninguna Heimþrá í hinum fallega bæ Altea á Spáni. Sýningin verður send út á veraldarvefnum til þess að sem flestir geti notið á tímum útgöngu – og samkomubanns á Spáni.

Nafnið Heimþrá er komið frá myndefninu sem er ansi mikið frá Akranesi og nágrenni.

Smári og maki hans Guðbjörg Nielsdóttir Hansen eru búsett á Altea á Spáni. Þar hafa þau búið undanfarin fimm ár. Smári er best þekktur hér á Skaganum sem Smári Kokkur og í samtali við skagafrettir.is segir Smári að myndlistin sé efst á forgangslistanum hjá honum.


„Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðann fréttavef, það er skemmtilegt að geta fylgst með fréttum úr heimabænum sínum á þennan hátt þegar maður býr erlendis,“ segir Smári.

„Myndlist hefur verið eitt af áhugamálunum hjá mér í gegnum tíðina. Ég hef dundað mér við að mála í fjölda ára og það er einfaldlega frábært að búa hér í Altea og stunda þetta áhugamál.“

Altea er mikill listamannabær á Costa Blanca ströndinni og er það ein af ástæðunum fyrir því að við fluttum hingað. Ferðafólk kemur mikið hingað í Altea til að skoða gamla bæinn hérna sem er einstaklega fallegur og heillandi.“

„Ég hef kynnst mörgum listamönnum hér á svæðinu. Sú tenging varð til þess að mér var boðið að taka þátt í samsýningu fimm listamanna af fimm mismunandi þjóðernum. Ég þáði það boð og sú sýning fór fram í febrúar og það var skemmtileg upplifun.

Síðastliðið haust óskaði einn af eigendum listamannabars eftir því að ég myndi setja upp einkasýningu. Það var mikill heiður að fá slíkt boð. Það stóð til að sýningin myndi opna föstudaginn 3. apríl. Af því verður að sjálfsögðu ekki, þar sem að mjög strangt útgöngubann er í gildi vegna Covid-19 veirunnar. Þessi listamannabar heitir Altearte. Þar fer fram fjölbreytt listastarfsemi. Myndlistasýningar, þar er starfandi bókaklúbbur, kvikmyndaklúbbur og ýmislegt annað. Ég hef fengið tækifæri að vera með sýnikennslu í mínu gamla fagi, matreiðslu, á þessum skemmtilega bar.“

Smári á nóg af listaverkum á lager sem hann ætlaði að sýna á Altearte barnum – en vegna breyttra aðstæðna ætlar hann að sýna verkin með öðrum hætti en upphaflega var áætlað.

„Ég hef málað talsvert mikið í vetur, til að eiga nóg til að fylla veggina á sýningasvæðinu. Ég ákvað að opna sýninguna með öðru sniði og verður þetta myndbandssýning.

Viðburðurinn hefst kl. 18:15 að íslenskum tíma á fésbókarsíðunum mínum en hlekkirnir eru hér fyrir neðan.

Sýningin heitir Heimþrá og nafnið er komið frá myndefninu sem er ansi mikið frá Akranesi og nágrenni. Ég er mikið að leika mér með birtu, sólsetur, sólarupprás og margt þar á milli. Myndin sem fylgir þessu viðtali er máluð ljósmynd eftir Ásþór Ragnarsson sem býr á Akranesi. Ég lít á þetta sem mitt framlag til þess að lýsa upp daginn fyrir fólk á útgöngubanns og samkomubannstímum og vonast til þess að þetta gleðji einhverja,“ sagði Smári Jónsson að lokum við skagafrettir.is


https://www.facebook.com/smariart/


https://www.facebook.com/smari.jonsson.3


https://www.youtube.com/channel/UCiRXuhemRmCt7H-1XReCFzw/featured