Fjörið heldur áfram í Hlégarði – sjáðu frábæran flutning hjá Sölku Sól


Skagamaðurinn Ísólfur Haraldsson er eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is í teyminu sem hefur skemmt landsmönnum undanfarin laugardagskvöld með þættinum „Heima með Helga“.

Fyrstu tveir þættirnir hafa svo sannarlega slegið í gegn og segir Ísólfur við skagafrettir.is að áhorfið á fyrstu tvo þættina sé „massívt“.

Þriðji þátturinn verður sýndur í beinni útsendingu úr Hlégarði í Mosfellsbæ laugardaginn 4. apríl og hefst söngskemmtunin kl. 20.00.

Hér má sjá brot úr skemmtiþættinum þar sem að Salka Sól fer á kostum með útgáfu af lagi sem hljómsveitin Sprengihöllin samdi og flutti á sínum tíma.

Ísólfur sagði í viðtali við skagafrettir.is fyrir viku síðan að hugmyndin að verkefninu hafi komið þegar hann var að vinna með Helga Björnssyni að tónleikum sem heita „Sumarhátíð Helga“ – sem eiga að fara fram í Háskólabíó. En vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 hafi þessi hugmynd komið upp hjá þeim félögum.

„Við höfðum samband við sjónvarp Símans – sem ákvað strax að vera með okkur í þessu. Upphaflega hugmyndin var að halda þessa tónleika heima hjá Helga Björnssyni. Og hafa þetta sem næst ástandinu sem dvið erum öll að upplifa, og reyna að hressa aðeins upp á íslensku þjóðina. Heima hjá Helga gátum við ekki uppfyllt 2 metra regluna hans Víðis. Þá ákváðum við að fara með þetta í Hlégarð sem er rekið af okkur félögunum í Gamla Kaufélaginu. Það verður því fjör á ný í Hlégarði með Helga Björns og gestum,“ segir Ísólfur við Skagafréttir.

Eins og áður segir verða tónleikarnir í sjónvarpi Símans, en einnig á útvarpsstöðinni K100 og mbl.is.