Sveinspróf á framhaldsskólastigi fara fram þrátt fyrir lokanir


Mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt skólameisturum starfsmenntaskóla og umsýsluaðilum sveinsprófa, hafa tekið saman höndum til að finna leiðir svo tryggja megi náms- og próflok hjá þeim sem nú stefna að sveinsprófum, þrátt fyrir tímabundnar lokanir skólabygginga og margra vinnustaða.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.

Sveinspróf verða að þessu sinni haldin 3-5 vikum eftir annarlok og eigi síðar en 15. september.

Í tilkynningunni kemur m.a. fram að búist sé við ríkri þörf í störfum tengdum iðngreinum.

Eftir nokkrar vikur hefjum við viðspyrnu eftir þrengingar í samfélaginu og þá verður enn ríkari þörf fyrir nýútskrifaða í öllum iðngreinum.

Nemendur eru beðnir að fylgjast vel með þróun mála á heimasíðu skólans síns og umsýsluaðila sveinsprófa. Fundnar verða lausnir við áskorunum hverrar iðngreinar og sveinsprófstakar upplýstir um þær eins fljótt og verða má.