Hugrekki Akranes – býður fram aðstoð fyrir þolendur heimilisofbeldis


Eftirfarandi pistill er frá einstaklingi á Akranesi sem vill bjóða fram krafta sína á Akranesi í ljósi ástandsins sem ríkir hér á landi sem annarsstaðar.


Í ljósi ástandsins langar mig að bjóða fram krafta mína í mínu bæjarfélagi.

Ég hef reynslu af heimilisofbeldi, bæði hef ég verið þolandi og svo hef ég aðstoðað þolendur við að komast í kvennathvarfið, í sálfræðimeðferð til stígamóta og á neyðarmóttöku.

Ofbeldi getur verið af margvíslegum toga og oft um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða. Ofbeldið getur verið andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt auk ýmis konar hegðunar sem felur í sér ógn, hótun, stjórnun og/eða þvinganir.

Afleiðingar geta líka verið margvíslegar, fyrir utan stöðugt yfirvofandi áreiti upplifa þolendur oft ótta, reiði, kvíði, þunglyndi, ógn og að þeir séu ekki við stjórnina í sínu eigin lífi.

Rannsóknir sýna einnig að þolendum finnst þeir ekki eiga neitt einkalíf, eru líklegri til að einangra sig, skammast sín fyrir stöðuna, finnst hún vera sér að kenna og upplifa sig hjálparlausa, miðað við þá sem ekki búa við þessa tegund ofbeldis.

Ég vil að fólk viti að það er ekki eitt, ég er til staðar, ég hlusta og ég er tilbúin að aðstoða fólk sé þess óskað.

Ég mæti öllum með skilning og án fordóma og að sjálfsögðu er 100% þagnarskylda, það er alltaf leið út úr myrkrinu.

Fólk getur hringt í mig í 8455050, sent skilaboð eða sent skilaboð á Facebook Hugrekki Akranes hvenær sem er og fengið aðstoð.

Ég veit vel hvað það er að vera innilokuð og vera lömuð af ótta en ég þekki það líka að standa upp fyrir sjálfri mér og sækja hjálp, til þess þarf hugrekki.

Annars segi ég gleðilega páska og verum vakandi fyrir umhverfinu okkar!

Sími: 845-5050
Facebook Hugrekki Akranes