Margar kenningar eru á lofti varðandi uppruna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 faraldrinum. Á vef RÚV er áhugaverð fréttaskýring þar sem að vísindamaður að nafni Xuhua Xia er í aðalhlutverki.

Xuhua Xia er sameindalíffræðingur við háskólann í Ottawa í Kanada.
Hann hefur beint sjónum sínum að flækingshundum í kínversku borginni Wuhan vegna uppruna Covid-19.
Kenning Xuhua Xia hljóðar í stuttu máli þannig, að flækingshundar gætu hafa étið afganga af leðurblökumáltíðum manna. Leðurblökurnar voru hýslar upprunalegu veirunnar, sem ekki smitaði menn á því stigi.
Þegar hún komst hins vegar í þarma hundanna þróaðist hún áfram, stökkbereyttist og tók á sig nokkurnveginn þá mynd sem hún hefur enn – og getur smitað menn. Talið er að hundarnir hafi ekki veikst af þessum sökum, að minnsta kosti ekki fengið flensueinkenni eða lungnapest af neinu tagi, heldur í mesta lagi einhverja magakveisu.
Þegar svo hundarnir sleikja á sér afturendann, eins og hunda er siður, og sleikja svo hund og annan, eins og hundar gera, berst veiran áfram hund af hundi – og af flækingshundum á heimilishunda. Þeir eiga það svo til að fagna húsbændum sínum og tjá þeim og öðru heimilisfólki gleði sína með hömlulitlum tunguslætti og tilheyrandi slettum.
Þannig berst veiran, sem nú er orðin skaðleg mönnum, úr hundsþarmi á hundstungu og þaðan á endanum í mannslungu, og þá er voðinn vís. Eða þannig hljóðar kenning Xuhuas.