Bæjarstjórn bregst við hækkandi sjávarstöðu með breytingum á deiliskipulagi


Bæjarstjórn Akraness samþykkti í gær á fundi sínum tillögu þess efnis að breytingar verði gerðar á deiliskipulagi við Sementsreitinn.

Um er að ræða framkvæmdir við endurgerð Faxabrautar.

Hækka þarf götuna um 2 metra á 800 metra kafla og með þeirri hækkun er gengið lengra en í núverandi deiliskipulagi. Breytingin er gerð til þess að mæta hækkandi sjávarstöðu varðandi byggð innan við götuna.

Með breytingunni færist göngustígur úr grjótvörn og til hliðar við götu – eins og sjá má á þessum skýringarmyndum.

Lagt er til að þversniðið verði með þessum hætti við Faxabraut. Horft til vesturs.

Hér má sjá fyrri hugmyndina sem búið var að samþykkja. Þar var gert ráð fyrir göngustíg ofaná sjóvarnargarðinum.