„Gulli Jóns“ stýrir nýrri sjónvarpsseríu – „Áskorun að selja hugmyndina“


„Hugmyndin af þessari þáttaröð vaknaði hjá mér í byrjun árs 2018. Ætlunin var að búa til heimildarþætti um íslenskar íþróttasögur í anda hinna frábæru ESPN þátta 30 for 30,“ segir Skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson við Skagafréttir en hann ýtti nýrri sjónvarpsþáttaröð úr vör á Sjónvarpi Símans.

Í þáttunum hittir Gunnlaugur afreksfólk í íþróttum sem hefur með einstöku hugarfari og þrautseigju sigrast á ólíkum áskorunum í gegnum lífið, innan vallar og utan.

Gunnlaugur segir að það hafi verið stór áskorun fyrir hann sjálfan að koma hugmyndinni í framkvæmd og selja öðrum hana.

„Það gekk illa að selja þessa hugmynd í upphafi. RÚV var með fókust á HM í fótbolta þetta árið. Stöð 2 sýndi þessu áhuga en það varð ekkert af fundinum sem mér hafði verið lofað. Kannski var það bensínið á eldinn sem ég þurfti – að sýna Stöð 2 hverju þeir færu á mis við,“ segir Gunnlaugur en fleiri Skagamenn koma við sögu í aðdragandanum.

„Reynir Leósson, fóstbróðir minn, hafði unnið um skeið hjá Saga Film. Reynir tengdi mig við Þórhall Gunnarsson sem tók mér opnum örmum. Saga Film ákvað um sumarið að framleiða þessa þætti með mér. Sjónvarp Símanns keypti sýningaréttinn í byrjun nóvember 2018. Þáttaröðin fékk nafnið Áskorun. Ragnar Hansson vinnur þessa þætti með mér og upptökur hófust í byrjun árs 2019.“

Þættirnir eru alls 5 og segir Gunnlaugur að þeir séu fjölbreyttir og ólíkar sögur sé sagðar úr fimm ólíkum íþróttagreinum.

Fyrsti þátturinn er sýndur í kvöld kl. 20:10 í opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans. „Í þættinum heimsækjum við knattspyrnuþjálfarann Elísabetu Gunnarsdóttur. Hún flutti til Svíþjóðar eftir stormasaman feril hér á Íslandi. Elísabet er að hefja sitt 13. tímabil sem þjálfari Kristianstad. Hún hefur frá mörgu að segja og m.a. því að hún horfði á 1000 fótboltaæfingar með strákunum í Breiðholtinu áður en hún þorði að mæta á æfingu sjálf. Hún var leikmaðurinn sem enginn þjálfari vill hafa í liðinu sínu. Hún er í dag einn farsælasti knattspyrnuþjálfari kvennaknattspyrnunnar á Norðurlöndum,“ segir Gunnlaugur.

Eins stór íþróttastjarna frá Akranesi verður til umfjöllunar í þáttunum. Sá þáttur verður sýndur í næstu viku.

Skagamaðurinn Ingi Þór Jónsson verður í aðalhlutverki í þeim þætti,“ segir Gunnlaugur. „Það er merkilegt að Ingi Þór lærði seint að synda en varð á örskömmum tíma sterkasti sundmaður landsins. Hann gaf sundferilinn upp á bátinn í kjölfar uppákomu tengdri Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984. Honum fannst sér ekki vært lengur á landinu. Hann kom út úr skápnum sem hommi og fór inní íþróttaskápinn – hann skammaðist sín fyrir íþróttaferil sinn og það tók hann 20 ár að sætta sig við hann. Þetta er einlæg og átakanleg saga manns sem upplifað hefur ást, missi og sæta sigra.“

Auk þess verður fjallað um hópfimleikalið Gerpu sem varð Evrópumeistari í tvígang, eitt ár í lífi handboltaþjálfarans Guðmund Guðmundssonar þegar hann hætti þjálfun en var svo óvænt kallaður til í byrjun árs 2008 þegar hann tekur við landsliðinu og breytir allri sinni nálgun í þjálfun sem leiddi af sér besta árangur í sögu handboltalandliðsins. Að endingu er það „risinn“ Tryggvi Snær Hlinason sem byrjaði að æfa körfubolta þegar hann fór í menntskóla á Akureyri en 40 mánuðum síðar er hann búinn að skrifa undir atvinnumannasamning hjá Spánarmeisturum Valencia,“ segir Gunnlaugur Jónsson að lokum.