Pistill: Börn, íþróttir og ylrækt


Þegar vorar og sól hækkar á lofti verður mörgum tamt að grípa til orðtaksins, að nú sé tími til að rækta garðinn sinn og öll þekkjum við óeiginlega merkingu orðtaksins sem bregður fyrir allan ársins hring.  

Þegar við göngum í gegnum umrótartíma eins og nú, þá er okkur ofarlega í huga að samfélagið komist um síðir öflugt frá þessum hremmmingum, bæði hvað varðar mannlífið og ekki síður hvað innviði samfélagsins snertir, atvinnu- og viðskiptalíf.   

Matvælaöryggi

Guðjón S. Brjánsson.

Þegar ræktunarmál ber á góma kemur ylrækt og matvælaframleiðsla fljótt upp í hugann,  iðulega er bent á matvælaöryggi á Íslandi um þessar mundir. Í því sambandi er tími til kominn að við náum áttum og hættum að einblína á löngu úrelt framleiðslukerfi landbúnaðarins. Á þetta höfum við í Samfylkingunni lengi bent með hagsmuni bændastéttarinnar í huga og raunverulegar þarfir samfélagsins, að við horfum fram á veginn en ekki stöðugt um öxl. 

Mannrækt

Mannrækt er einnig mikilvægt ræktunarstarf og fátt tekur fram einstöku starfi íþróttahreyfinga um allt land.  Þetta er lýðheilsustarf, forvarnir og heilsueflandi verkefni, allt í senn.   

Íþróttastarf á landsbyggðinni og áhugafólk sem stendur vörð um það berst í bökkum, fjárhagslegum bakhjörlum fækkar, sveitarfélög eru víða fjárvana. Alltaf er þó fyrir hendi ýmislegur fastur kostnaður, svo sem vegna þjálfunar, æfingaaðstöðu og ferðalaga sem er iðkendum á landsbyggðinni afar þungur í skauti. Þarna þurfum við að vera á verði og tryggja öllum börnum og ungmennum aðstæður til að efla hreyfiþroska sinn og um leið að styrkja hvern og einn  til vaxtar sem heilbrigður einstaklingur.  

Börnin

Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að börn á Íslandi eru að þyngjast að líkamsvigt og það eru hættuleg teikn. Ekkert betra mótvægi er til en skipuleg hreyfing og íþróttir við hæfi.  

Opinberar aðgerðir stjórnvalda þurfa að taka mið af þessu og tryggja verður að þessi mikilvægi samfélagsþáttur fái ríkulegan skerf af stuðningi í því bakslagi sem börn og ungmenni upplifa nú, ekki síður en aðrir.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar, NV kjördæmi