Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri Knattpspyrnufélags ÍA segir í viðtali á ÍATV að erfið fjárhagsleg staða félagsins sé tækifæri til að taka til í rekstrinum og horfa fram á veginn. Geir tók við framkvæmdastjórastarfinu nýlega. Geir hefur mikla reynslu úr rekstrarumhverfi knattspyrnunnar á Íslandi og var hann spurður að því í viðtalinu hvernig stæði á 60 milljóna kr. taprekstri félagsins á síðasta rekstrarári.
Félagið fékk á sig högg í fyrra og tapaði töluverðum fjármunum á síðasta ári. Það hefur gerst oft áður í knattspyrnuhreyfingunni. Slík staða byggist oft því að væntingarnar eru miklar, menn fara of langt í gjöldunum og tekjurnar falla. Þetta gerðist í fyrra hjá KFÍA. Það var samdráttur hjá íslenskum fyrirtækjum eftir fall WOW air – á þeim tíma byrjuðu fyrirtækin að draga hendurnar að sér og minnka styrki til íþróttafélaga. Á sama tíma var ÍA búið að þenja aðeins reksturinn. Þá geta komið svona högg á félögin og Akranes varð fyrir miklu höggi í fyrra.“
Skuldastaða KFÍA er að mati Geirs ekki mikil og hann er bjartsýnn á að félagið nái vopnum sínum á ný.
„Félagið er ekki mjög skuldsett. Það skuldar „bara“ 15 milljónir en mörg önnur félög eru í verri stöðu. Ég sé þessa stöðu sem tækifæri til að taka til í okkar ranni og tryggja rekstrargrundvöllinn. Fyrir mér er þetta eins og að tapa 5-0. Spurningin sem þarf að svara er hvað ætlum við að vera föst í því lengi – því að næsti leikur er framundan. Það góða og skemmtilega við fótboltann er að það byrja öll liðin á sama stað þegar mótið hefst að nýju og það er nýtt tækifæri framundan fyrir félagið,“ segir Geir m.a. í viðtalinu sem má sjá hér fyrir neðan.