Brekkubæjarskóli og Þorpið fengu góðan styrk úr Sprotasjóði


Samvinnuverkefni Brekkubæjarskóla, Þorpsins og Menntavísindasvið Háskóla Íslands fékk á dögunum styrk úr Sprotasjóði. Styrkurinn er 1,3 milljónir kr. og verkefnið er „Þátttaka er samvinna- valdefling barna.“

Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og er hlutverk sjóðsins að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi.

Hér má sjá yfirlit yfir þau verkefni sem hlutu styrk.

Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að markmið verkefnis sé að stuðla að því að öll börn finni að þau tilheyri félagslegu umhverfi, valdefla þau og þá sérstaklega þau sem standa höllum fæti og efla þátttöku þeirra í eigin lífi.

Verkefnið er unnið út frá Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en samkvæmt honum eiga öll börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Með verkefninu er vonast til að þátttaka barna í þróun skóla- og frístundastarfs og umhverfi þess muni gera okkur kleift að greina hindranir fyrir félagslegri þátttöku barna og bera kennsl á ástæður fyrir því að börn lenda á jaðrinum.

Í samvinnu við börnin verður hægt að vinna markvisst að því að þróa starfshætti og umhverfi sem stuðlar að því að öll börn upplifi sig tilheyra og virkir þátttakendur.

Með verkefninu er verið að mæta kröfum barna og ungmenna á Akranesi um Akranes sem barnvænt sveitafélag og lítum við þannig á að verkefnið geti orðið liður í þeirri vegferð.