Ríki og sveitarfélög fara í átaksverkefni vegna sumarvinnu námsmanna


Félags- og barnamálaráðuneytið, hefur ákveðið, í samræmi við tillögu ríkisstjórnar Íslands, að verja um 2.200 milljónum króna í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar.

Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, á milli anna sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga.

Um er að ræða 4,5 sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið árið 2008.

Átakið er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er vinna þegar hafin við undirbúning.

Öll sveitafélög munu skila inn tillögum til Vinnumálastofnunar og í framhaldinu verða öll störfin auglýst.

Undirbúningi verður lokið á næstu vikum þannig að unnt verði að auglýsa störfin opinberlega fyrir 26. maí næstkomandi.

Stofnanir og sveitarfélög þurfa að skapa ný störf í tengslum við átakið.

Ráðningartími námsmanna er að hámarki tveir mánuðir og miðað er við tímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.