Skiptar skoðanir í bæjarráði um framtíð fasteignar við Suðurgötu 108


Skiptar skoðanir eru um framtíð fasteignar við Suðurgötu 108 í bæjarráði Akraness.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti á síðasta fundi ráðsins að fasteignin verði sett í söluferli en bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er á móti þeirri ákvörðun. Vísar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nýtt deiliskipulag frá árinu 2017 þar sem að heimild er fyrir því að rífa húsið við Suðurgötu 108.

Suðurgata 108 hefur verið lengi til umræðu í „bæjarkerfinu“. Húsið hefur m.a. verið notað fyrir fundi AA samtakana og áhugaljósmyndafélagið Vitinn hefur einnig verið með aðstöðu í húsinu.

Húsið þarfnast mikils viðhalds og endurbóta – en lítið sem ekkert viðhald hefur verið á þessu mannvirki í mörg ár.

Valgarður Lyngdal Jónsson og Elsa Lára Arnardóttir samþykktu að setja Suðurgötu 108 í söluferli. Settar verða kvaðir um viðhald, kauprétt og forkaupsrétt

Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er á á móti þessari ákvörðun setti fram eftirfarandi bókun í fundargerð bæjarráðs.

Á fundi bæjarráðs þann 16. maí 2019 bókaði bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi: Bæjarfulltrúinn RÓ lýsir yfir andstöðu sinni við að selja Suðurgötu 108 á almennum markaði. Í nýju deiliskipulagi á Sementsreit, sem samþykkt var í september 2017, er heimild fyrir því að rífa húsnæðið og hefur umræðan öll verið á þá leið frá því að deiliskipulagsverkefnið byrjaði. Þessi ákvörðun um að halda húsnæðinu við Suðurgötu 108 er því viðsnúningur frá fyrri hugmyndum um uppbyggingu á reitnum. Einnig setur bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins miklar spurningar við það hvernig þetta mál hefur þróast frá því að bæjarráð beindi erindi til skipulags- og umhverfisráðs um að undirbúa niðurrif hússins á fundi sínum þann 27. mars síðastliðinn.“

Afstaða bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli hefur ekkert breyst frá þeim tíma er málið kom síðast inn til afgreiðslu í bæjarrráði. Einnig hefur undirrituð miklar efasemdir um þær kvaðir sem settar eru fram í gögnum málins.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/12/04/akraneskaupstadur-stefnir-a-ad-selja-nokkrar-vel-thekktar-fasteignir-ur-safni-sinu/