Draumahöggunum rignir á Garðavelli – Elísabet og Guðjón í Einherjaklúbbinn


Draumahöggunum rignir á 3. holu á Garðavelli hér á Akranesi – en tveir félagar úr Golfklúbbnum Leyni skráðu sig í Einherjaklúbbinn með frábærum höggum með eins dags millibili.

Það gerist ekki á hverjum degi að kylfingar fari holu í höggi. Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir að meðaltali til þess að ná því að fara holu í höggi. Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið.

„Draumar geta ræst,“ segir Elísabet Valdimarsdóttir félagsmaður í Golfklúbbnum Leyni og formaður kvennanefndar GL.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer holu í höggi. Ég sló með 52 gráðu fleygjárni. Tilfinningin var þannig að ég átti erfitt með að trúa því að þetta hefði gerst. Eftir á var mjög gaman að þessu – þetta er jú draumahögg allra kylfinga,“ segir Elísabet við Skagafréttir.


Guðjón Theodórsson setti boltann í holuna af 115 metrum í dag með 8-járninu og hann segir við Skagafréttir að tilfinningin hafi verið geggjuð. Hann var að leika með eiginkonu sinni Ellen Ólafsdóttur. Þess má geta að Ellen gerði sér lítið fyrir og lék þessa sömu braut á tveimur höggum.

„Við Ellen sáum í boltann eftir höggið mitt. Við héldum lengi að boltinn væri alveg á brúninni á holunni. Þegar við komum að boltanum þá sáum við að hann var ekki alveg ofaní, þar sem hann var skorðaður við stöngina,“ segir Guðjón en boltinn datt ofaní holuna að lokum. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðjón fer holu í höggi á ferlinum. „Við skáluðum aðeins eftir hringinn á Garðavöllum og fögnuðum þessu þannig,“ bætti hann við.

Laufléttar upplýsingar um draumahöggið í golfi.

Á hverju ári eru um 150.000 draumahögg slegin á heimsvísu. Allir kylfingar hafa látið sig dreyma um að fara holu í höggi en hverjar eru líkurnar á því að slíkt gerist?

12.500 – Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir til þess að ná því að fara holu í höggi. 

5.000 – Lágforgjafarkylfingur þarf um 5.000 tilraunir til þess að slá boltann ofan í holuna í teighögginu. 

2.500 – Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið. 

51 – Oftast allra – heimsmet: Bandaríkjamaðurinn Mancil Davis er sá kylfingur sem hefur oftast farið holu í höggi. Davis er PGA-kennari og hefur slegið draumahöggið í 51 skipti á ferlinum. 

200 ára biðtími – Meðalkylfingur þarf 200 ár til þess að ná draumahögginu en þeir kylfingar sem leika 75 hringi að meðaltali á ári þurfa aðeins að bíða í 30 ár eftir að ná því að fara holu í höggi. 

Þriðjudagar – Á hvaða vikudegi eru mestar líkur á því að fara holu í höggi? – Jú, það er á þriðjudögum, samkvæmt tölfræðisamantekt á heimsvísu. 

Lengsta færið: Mike Crean dúndraði boltanum ofan í holuna af 472 metra færi á par 5 holu á golfvelli í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum. Hann gat reyndar stytt sér leið með því að slá yfir skóg, sem hann gerði, og niðurstaðan var fullkomin. 

1% kylfinga á Íslandi

Samkvæmt tölfræði sem birt er á vef Einherjaklúbbsins á Íslandi fara 1% kylfinga landsins holu í höggi árlega. Rétt tæplega þó, því 130-140 draumahögg eru slegin árlega af íslenskum kylfingum. 

Ragnar Einarsson er yngsti íslenski kylfingurinn sem hefur farið holu í höggi. Hann var sex ára árið 1994 þegar hann fór holu í höggi. Arnar T. Sigþórsson er sá elsti sem hefur afrekað að fara holu í höggi af íslenskum kylfingum. Hann var 98 ára gamall árið 1985 þegar hann sló draumahöggið.