„Besta þjálfunin í vináttu er að leika við aðra“ – Vináttunámskeið á dagskrá hjá Akraneskirkju


„Ég er búin að ganga með hugmyndina að þessu námskeiði í langan tíma, en ekki haft tækifæri til að hrinda henni í framkvæmd. Nú þegar það bætust við nýir prestar í vor þá gafst tækifærið en við sr. Þóra Björg munum leiða námskeiðið,“ segir Þráinn Haraldsson sóknarprestur við Garðaprestakall á Akranesi um áhugavert námskeið sem boðið verður upp á í júní.

Vináttunámskeið er nafnið á verkefninu.

“Í starfi okkar með börnum hittir maður oft krakka sem eiga erfitt uppdráttar félagslega, eiga fá vini og einangrast oft. Fyrir því geta verið ótalmargar ástæður. Á námskeiðinu okkar viljum við gefa börnum tækifæri til að leika við aðra krakka, undir öruggri handleiðslu fullorðinn. Besta þjálfunin í vináttu er að leika við aðra.

Sr. Þráinn Haraldsson.

Hér munum við nota langa reynslu okkar af barnastarfi og úr sumarbúðunum í Vatnaskógi og Ölveri, búa til tryggan ramma og skemmtilega leiki sem reyna á samspil og samvinnu.

Við höfum svo fengið til liðs við okkur frábært fólk frá KVAN sem hefur sérhæft sig í vináttuþjálfun fyrir börn og unglinga. Síðustu tvö skiptin munu vinaþjálfari koma í heimsókn og fjalla um vináttuna fyrir krakkana.

Í raun var alltaf hugmyndin að byrja næsta haust, en í kjölfar samkomubannsins yrðu við þess áskynja að mörg börn stóðu verr að vígi en áður, enda búið að vera erfitt tímabil fyrir alla. Við vildum því láta á þetta reyna núna, til að mæta þeirri þörf sem er til staðar. Að þessu sinni er námskeiðið ætlað 8-10 ára börnum (2-4. bekkur), ef vel gengur munum við sjálfsagt endurtaka námskeiðið og þá jafnvel fyrir eldri börn.

Takmarkaður fjöldi barna getur tekið þátt og því er mikilvægt að skrá sig á akraneskirkja.is – segir Þráinn Haraldsson að endingu.