Anna Björk vinnur að því að gera heimasíðu Akraneskaupstaðar „altalandi“


Anna Björk Nikulásdóttir hefur á undanförnum misserum unnið að áhugaverðum verkefnum sem tengjast íslensku og forritun.

Áhugamál Önnu sameinast í verkefninu sem hún vinnur að í samstarfi við Akraneskaupstað.

Verkefnið gengur út á það að heimasíða Akraneskaupstaðar geti svarað spurningum sem bornar eru fram með talmáli. Þeir sem heimsækja vefsíðu Akraneskaupstaðar geta í framtíðinni borið fram spurningar sem er svarað jafnóðum.

Með þessum hætti er hægt að hækka þjónustustigið og gera upplýsingaöflun aðgengilegri fyrir marga hópa samfélagsins.

Heiðar Mar Björnsson og Hlédís Sveinsdóttir tóku Önnu Björk tali á dögunum um verkefnið og má sjá innslagið í hinum vinsæla þætti „Að Vestan“ sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni N4.

Anna Björk er með starfsstöð sína í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg – en í því húsi eru margir frumkvöðlar við vinnu sína við margvísleg verkefni.