„Ég hélt boltanum á lofti í 1 klukkutíma og 44 mínútur. Og snertingarnar voru í það minnsta 11.582,“ segir Knútur Haukstein Ólafsson við Skagafréttir. Knútur setti nýverið nýtt Íslandsmet í því að halda bolta á lofti í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.
Slík met eru ekki skráð hjá Knattspyrnusambandi Íslands en Knútur segir að hann sé methafi þangað til að annar Íslendingur slær þetta met.
Myndband af Íslandsmetinu má sjá hér fyrir neðan.
Heimsmetið í því að halda bolta á lofti á Milene Domingues frá Brasilíu. Hún hélt boltanum á lofti í 9 klukktíma og 6 mínútur. Á þeim tíma náði hún 55.198 snertingum.
Knútur er fæddur í Reykjavík en hann flutti upp á Akranes árið 2009 ásamt fjölskyldu sinni. „Ég útskrifaðist úr FVA árið 2013 og æfði fótbolta af og til með ÍA. Ég hef alltaf verið meira einstaklingsmiðaður og liðsíþróttir áttu því ekki vel við mig. Mér hefur alltaf þótt gaman að vera með boltann og leika mér, gera allskonar brellur,“ segir Knútur og ítrekar að það sé hægt að vera með margskonar hæfileika sem tengjast knattspyrnu.
„Ég hef æft mig með þeim hætti að ég get kannski gert hluti með boltann sem er erfitt fyrir leikmenn að útfæra í „alvöru“ fótboltaleik. Ég fæ tíma og frið til að halda boltanum á lofti og gera allskonar kúnstir. Það er stór munur á þeim aðstæðum og að reyna að gera eitthvað slíkt í venjulegum fótboltaleik. Flestar af þessum brellum mínum myndu fáir komast upp með að gera í alvörufótboltaleik. Ronaldinho, Zlatan Ibrahimovic og Zinedine Zidane hafa kannsk gert svona kúnstir í atvinnu fótbolta án þess að vera hreinlega teknir fyrir eða stöðvaðir.“
Hæfileikar í knattspyrnu geta verið með ýmsum hætti – og ég hef lagt áherslu á að vera „freestyle“ sem felur í sér að gera allskonar listir með boltann. Ég hef þjálfað mig í þessu frá því ég var unglingur – en það er ekkert víst að þessir hæfileikar myndu skila sér úti á velli í hefðbundnum fótboltaleik. Sumir eru góðir í því að halda bolta á lofti en eru ekkert sérstakir í öðru, og sumir eru ekkert sérstakir í því að halda bolta á lofti en eru samt sem áður frábærir atvinnumenn.“
Knútur hefur einnig vakið athygli fyrir kvikmyndir sem hann hefur komið að á undanförnum árum. Hann stundar nám við Háskóla Íslands en árið 2015 lauk hann námi í Kvikmyndagerð.
„Ég er í námi við sálfræði við Háskóla Íslands og er hálfnaður með það nám. Kvikmyndagerð hefur einnig verið áhugamál hjá mér. Ég útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2015,“ segir Knútur en hann hefur fengið 14 verðlaun fyrir myndir sínar á ýmsum erlendum kvikmyndahátíðum og fengið 7 tilnefningar til verðlauna,“ segir Knútur Haukstein Ólafsson við Skagafréttir.