Þaulreyndur leikmaður tekur við þjálfarastarfinu hjá Kára


Knattspyrnufélagið Kári hefur ráðið nýjan þJálfara fyrir liðið sem leikur í þriðju efstu deild á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla.

Starfið var auglýst á dögunum og sóttu alls átta þjálfarar um starfið.

Gunnar Einarsson tekur við liðinu en hann er þaulreyndur leikmaður og lék m.a. sem atvinnumaður í Hollandi og á Englandi.

Gunnar hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum fjórum sinnum sem leikaður KR og Vals. Hann á einnig tvo bikarmeistaratitla sem leikmaður. Gunnar lék með yngri landsliðum Íslands og á að baki einn A-landsleik.

Gunnar hóf þjálfaraferilinn sem aðstoðarmaður Sigursteins Gíslasonar hjá Leikni í Reykjavík. Hann hefur á undanförnum árum þjálfað hjá Val. Hann er rekstrarstjóri íþróttafélagsins Mjölnis í Öskjuhlíð.

Fyrsta verkefni Gunnars með lið Kára er gegn KV í Mjólkurbikarkeppni KSÍ en leikurinn fer á gamla heimavelli þjálfarans, á heimavelli KR í Frostaskjóli.