Valdís Þóra tekur stutta hvíld til að byggja sig upp fyrir næstu verkefni


Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, verður ekki með á öðru móti tímabilsins á stigamótaröð GSÍ.

Valdís Þóra hefur glímt við meiðsli í baki í mörg misseri og í samráði við sjúkrateymið sitt ætlar hún að taka sér hvíld um næstu helgi á Golfbúðarmótinu sem fram fer á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja.

Í færslu sem Valdís Þóra birti á fésbókarsíðu sinni segir hún m.a. að henni þyki leitt að geta ekki tekið þátt á næsta móti, en hún ætlar að byggja sig upp fyrir Íslandsmótið í holukeppni sem fram fer á Akureyri 19-21. júní.

Góðan daginn,

Mig langaði að láta aðeins vita af mér enda hef ég ekki sett neitt hérna inn í langan tíma. Dagarnir líða hægt en tíminn líður hratt og nú er allt í einu kominn Júní og ég alveg gleymt mér.

Einhver ykkar hafa kanski tekið eftir því að ég er ekki skráð til leiks í Leirunni um helgina og mig langaði að gefa ykkur smá update vegna þess ☺️

Eins og flest ykkar vita þá hef ég glímt við meiðsli í baki í allnokkurn tíma.

Ég og sjúkrateymið mitt vorum búin að ná því á fínan stað og erum ennþá á fínum stað þeim megin í bakinu (hægra megin). Hins vegar hef ég verið að finna fyrir óþægindum vinstra megin síðan í lok apríl og ekki alveg klár á hvort það hafi verið lítilsvæg tognun eða hvað. Allavega þá höfum verið að vinna vel í því í maí en lofthitinn hérna á Íslandi er ekki minn besti vinur.

Síðasti hringurinn á Akranesi um daginn var ansi kaldur og fór illa í bakið á mér og hef ég fundið fyrir miklum óþægindum síðan og því tókum við teymið ákvörðun um það að ég myndi hvíla aðeins til að ná bakinu betra og setja allan fókusinn á að vera tilbúin í Holukeppnina á Akureyri um miðjan Júní.

Ég hefði gjarnan viljað vera með í Leirunni en ég vil ná þessu úr mér sem fyrst til að geta verið með í sumar og verið tilbúin í haust þegar Evrópumótaröðin fer aftur af stað 😊 Það er nefnilega betra að fórna einu móti en að spila verkjuð í marga mánuði og það er okkar áhersla.

Allavega þá langaði mig bara að deila þessu með ykkur og ég hlakka til að koma sterk til leiks í holukeppninni á Akureyri 😉

Ég vona að þið hafið það gott!

Bestu kveðjur
Valdís Þóra