Nóg pláss verður fyrir áhorfendur á fyrsta heimaleik ÍA


Keppni í Pepsi-Max deild karla í knattspyrnu hefst í kvöld en ÍA leikur sinn fyrsta leik gegn liði KA sunnudaginn 14. júní á Norðurálsvelli á Akranesi.

Leikurinn hefst kl. 15:45.

Í tilkynningu frá Knattspyrnufélaginu kemur fram að nóg pláss verði fyrir stuðningsmenn beggja liða á frábærum áhorfendastæðum beggja vegna við völlinn.

„Hólf verða afmörkuð og í hverju hólfi er gert ráð fyrir 200 fullorðnum en börn sem eru í hólfunum telja ekki með. Í vesturhluta stúkunnar, sem er fjær Akraneshöllinni, verða tvö hólf fyrir stuðningsmenn ÍA. Nóg pláss verður á grassvæðinu. Sérstakt hólf verður vestast á grasbökkunum fyrir þá sem vilja halda 2 metra fjarlægð frá öðrum áhorfendum.

Stuðningsfólk KA verður í hólfum í austurhluta stúkunnar sem er nær Akraneshöllinni.

Vallargestir eru hvattir til að nýta Stubb-appið sem er miðasöluapp í síma til að kaupa miða. Með því að nota það geta vallargestir komið á völlinn og verið á vellinum án nokkurrar snertingar kjósi þeir slíkt.

Miðaverð á stakan leik í PepsiMax deildinni á Norðurálsvelli í sumar

17 ára og eldri kr. 2.000.-

16 ára (f. 2004) og yngri frítt